Milos yfirgefur Mjällby - fer hann í eitt af stærstu liðum Svíþjóðar?

Milos Milojevic.
Milos Milojevic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings í Reykjavík og Breiðabliks, gæti verið á leið til Malmö, eins stærsta knattspyrnufélags Svíþjóðar, en félag hans, Mjällby, tilkynnti í dag að hann væri hættur störfum þar.

Milos náði frábærum árangri með Mjällby sem fór upp um tvær deildir á tveimur árum undir hans stjórn og leikur í úrvalsdeildinni á næsta ári.

Á vef Mjällby segir að Milos sé á förum frá félaginu. Hann hafi beðið um endurskoðun á samningi sínum, sem átti að gilda í tvö ár í viðbót. Ekki hafi hinsvegar verið hægt að komast að niðurstöðu sem báðir aðilar hefðu verið sáttir við og þar með hafi verið ákveðið að binda endi á samstarfið.

„Við ræddum um hvernig ætti að stýra félaginu og ég vildi að verksvið mitt væri á hreinu. En við vorum ekki sammála um hvernig ætti að taka næstu skref í félaginu og við náðum heldur ekki samkomulagi um nýjan samning. Þá fannst mér rétt að yfirgefa Mjällby á þessum tímapunkti svo þeir fengju svigrúm til að ráða nýjan þjálfara," segir Milos í samtali við Aftonbladet.

Dagblaðið Kvällsposten segir á vef sínum í dag að stórlið Malmö hafi mikinn áhuga á að fá Milos í sínar raðir. Forráðamenn félagsins vilji fá hann í stað aðstoðarþjálfarans Andreas Georgson sem er hættur störfum og farinn til Brentford á Englandi.

mbl.is