Gátum ekki séð fyrir að leikurinn yrði farsóttarsprengja

Áhorfendur voru rúmlega 44 þúsund og langflestir á bandi Atalanta …
Áhorfendur voru rúmlega 44 þúsund og langflestir á bandi Atalanta sem fékk gríðarlegan stuðning. AFP

Aleksander Ceferin, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, segir að það hafi ekki verið nokkur leið að sjá það fyrir að leikur Atalanta og Valencia í Meistaradeild Evrópu sem fram fór í Mílanó á Ítalíu 19. febrúar yrði að þeirri „farsóttarsprengju“ sem allt bendir nú til að hann hafi verið.

„Hinn 19. febrúar vissi ekki nokkur maður að Lombardia myndi verða miðpunktur kórónuferaldursins. Hvernig áttum við að fara að því að lýsa því yfir að þessi leikur ætti ekki að fara fram? Við fórum að öllu leyti eftir ráðum stjórnvalda og gátum ekkert gert við þessu,“ sagði Ceferin við Marca á Spáni í gærkvöld.

Leikmenn Atalanta fagna einu markanna í leiknum umdeilda í Mílanó.
Leikmenn Atalanta fagna einu markanna í leiknum umdeilda í Mílanó. AFP

Atalanta er frá Bergamo, skammt norður af Mílanó, en þar sem heimavöllur liðsins tekur aðeins um 21 þúsund áhorfendur hefur liðið heimaleiki sína í Meistaradeildinni í vetur í höfuðborg Lombardia (Langbarðalands). Því voru rúmlega 44 þúsund manns á leiknum gegn Valencia og nú hefur fjöldi smita á svæðinu verið rakinn til mannfjöldans sem þar var saman kominn og hefur líkast orðið til þess að veiran barst hraðar á milli fólks á svæðinu en nokkurn óraði fyrir.

Leikur liðanna í Bergamo var fyrri viðureign liðanna í sextán liða úrslitum keppninnar og Atalanta vann hann 4:1, sem og seinni leikinn á Spáni þrettán dögum síðar, 4:3. Sá leikur fór fram án áhorfenda en þegar þar var komið sögu var þegar búið að setja Ítalíu í heild sinni í sóttkví. Einvígi liðanna er eitt af þeim fjórum sem náðist að ljúka áður en keppni var frestað vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert