Verður ekki refsað fyrir hárgreiðsluna

Jadon Sancho.
Jadon Sancho. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jadon Sancho braut ekki reglur þýsku deildarinnar þegar hann, ásamt fimm öðrum leikmönnum, fór í hárgreiðslu og tók í kjölfar myndir af sér sem hann deildi á samfélagsmiðlum en hann notaði ekki hlífðargrímu þrátt fyrir að vera á almannafæri.

Englendingurinn ungu hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Dortmund í vetur og hefur verið orðaður við mörg af stærstu liðum Evrópu. Þýska deildin hóf göngu sína á ný fyrir um tveimur vikum eftir hlé vegna kórónuveirunnar og er spilað með þó nokkrum takmörkunum. Leikir eru spilaðir fyrir luktum dyrum og leikmenn beðnir um að yfirgefa helst ekki heimili sín nema til að sækja nauðsynjar.

Yfirmaður íþróttamála hjá Dortmund, Michael Zorc, segir að Sancho hefði betur sleppt því að fara í klippingu en hann braut þó ekki reglur. „Hann hefði ekki átt að gera þetta, en við höfum öll verið ung einhvertímann. Allir verða að passa sig og félagið verður að passa sig að refsa ekki of grimmilega heldur. Við höfum rætt við leikmennina sem áttu í hlut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert