Fimm rauð spjöld og aftur tapaði PSG

Neymar gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið.
Neymar gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið. AFP

Brasilíumaðurinn Neymar var einn af fimm leikmönnum sem voru reknir af velli undir lok leiks París SG og Marseille í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Dómari leiksins sýndi Neymar rauða spjaldið eftir að hafa skoðað myndband af atviki þar sem Brasilíumaðurinn sló andstæðing. Á leið sinni af velli sagði Neymar við fjórða dómara leiksins að hann hefði heyrt rasísk ummæli í sinn garð.

Alls voru gulu og rauðu spjöldin sýnd 17 sinnum sem er met í franska fótboltanum á þessari öld. Auk Neymars fengu samherjar hans Layvin Kurzawa og Leandro Paredes rauða spjaldið, sem og Jordan Amavi og Dario Benedetto, leikmenn Marseille.

PSG tapaði leiknum á heimavelli, 0:1, þar sem Florian Thauvin skoraði eftir hálftíma fyrir Marseille. Þar með hefur stjörnum prýtt meistaraliðið tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á tímabillinu og það hefur ekki gerst hjá félaginu frá haustinu 1984.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert