Skrifar undir í Þýskalandi á næstu dögum

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék sína fyrstu A-landsleiki síðasta haust.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék sína fyrstu A-landsleiki síðasta haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er að ganga til liðs við þýska stórliðið Bayern München samkvæmt heimildum mbl.is.

Fótbolti.net greindi fyrst frá því að þýskt félag væri í viðræðum við Breiðablik um kaup á landsliðskonunni og í lok árs birti miðillinn frétt um að umrætt félag væri Bayern München.

Samkvæmt heimildum mbl.is mun Karólína skrifa undir samning við topplið þýsku deildarinnar á næstu dögum en hún einungis 19 ára gömul.

Hún verður annar Íslendingurinn til þess að leika með liðinu á eftir Dagnýju Brynjarsdóttur sem varð Þýskalandsmeistari með Bæjurum árið 2015.

Bayern hefur þrívegis orðið þýskur meistari, 1976, 2015 og 2016 en liðið er með 36 stig í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar og hefur 5 stiga forskot á Þýskalandsmeistara Wolfsburg eftir tólf umferðir.

Karólína gekk til liðs við Breiðablik frá uppeldisfélagi sínu FH árið 2017 en hún á að baki 78 leiki í efstu deild með Breiðabliki og FH þar sem hún hefur skorað ellefu mörk.

Sóknarkonan lék sína fyrstu A-landsleiki á síðasta ári í undankeppni EM og byrjaði báða leiki íslenska landsliðsins gegn Svíþjóð, á Laugardalsvelli og í Gautaborg.

Hún hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki og einu sinni bikarmeistari á tíma sínum í Kópavoginum og þá var hún lykilmaður í liði Blika sem fór alla leið í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar tímabilið 2019.

mbl.is