Þvílíkur heiður að vera orðuð við Bayern München

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gæti farið til Bayern München.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gæti farið til Bayern München. Eggert Jóhannesson

„Það er þvílíkur heiður að vera orðuð við Bayern München og ef þetta gengur eftir er það mjög spennandi,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir landsliðskona í fótbolta í samtali við mbl.is. Þýska stórliðið Bayern München er í viðræðum við Breiðablik um kaup á Karólínu, sem er aðeins 19 ára.

Karólína er sem stendur að jafna sig á meiðslum, sem gætu haldið henni frá keppni næstu þrjá mánuðina. „Ég er núna að jafna mig á meiðslum þar sem ég reif liðþófa. Það er enn meiri heiður að félagið vill fá mig þótt ég sé meidd. Ég stefni á að byrja að hlaupa í janúar og svo verð ég örugglega orðin alveg klár í mars,“ sagði Karólína.

Hún hefur heyrt af áhuga annarra félaga, en viðurkennir að Bayern München sé afar spennandi kostur. „Það hafa verið einhver lið á Norðurlöndunum en ekkert þeirra er eins spennandi og Bayern München,“ sagði hún.

Sveindís Jane Jónsdóttir, liðsfélagi Karólínu hjá landsliðinu og Breiðabliki á síðustu leiktíð, gekk í gær í raðir Wolfsburg í Þýskalandi en hún verður lánuð til Kristianstad í Svíþjóð í eitt tímabil áður en hún fer til Þýskalands. Karólína útilokar ekki að hún fari einnig á lán fyrst um sinn. „Við skulum bíða og sjá, það er ekkert í höfn enn þá. Ef þetta gengur eftir fer þetta eftir því hvað félagið vill,“ sagði Karólína Lea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert