Mæta til leiks án þrettán leikmanna og stjórans

Leikmenn Celtic hafa verið í vandræðum í deildinni heima fyrir …
Leikmenn Celtic hafa verið í vandræðum í deildinni heima fyrir í vetur og nú er það kórónuveiran sem setur strik í reikninginn. AFP

Skotlandsmeistarar Celtic ætla að spila gegn Hibernian í skosku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld þó þá vanti þrettán leikmenn, knattspyrnustjórann og aðstoðarmann hans vegna kórónuveirusmita.

Þrettán leikmenn úr aðalliði Celtic eru með kórónuveiruna, sem og þeir Neil Lennon knattspyrnustjóri og John Kennedy aðstoðarmaður hans.

Félagið hefur hinsvegar staðfest að það muni mæta til leiks í kvöld. Liðið er nýkomið úr æfingaferð til Dubai en við komuna þaðan greindist einn leikmannanna, Christopher Jullien, með veiruna og þar með þurftu hinir allir að fara í sóttkví.

Celticmenn hafa verið gagnrýndir harðlega í Skotlandi fyrir að fara til Dubai og Nicola Sturgeon, aðalráðherra Skotlands í bresku ríkisstjórninni, sagðist efast um að farið hefði verið eftir sóttvarnareglum í ferðinni, miðað við myndir sem leikmenn liðsins hefðu birt á samfélagsmiðlum.

Í yfirlýsingu frá Celtic segir að smit hefði alveg eins geta komið upp þó liðið hefði haldið kyrru fyrir í Skotlandi og að félagið hefði farið í hvívetna eftir settum reglum um sóttvarnir í ferðinni.

Celtic er nú þegar 22 stigum á eftir erkifjendunum í Rangers í einvíginu um skoska meistaratitilinn en á þó fjóra leiki til góða. Það getur orðið þrautin þyngri að knýja fram sigur í kvöld en Hibernian er í fjórða sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir Celtic.

mbl.is