Lagerbäck heldur öllu opnu

Lars Lagerbäck var landsliðsþjálfari Íslands á árunum 2012 til 2016.
Lars Lagerbäck var landsliðsþjálfari Íslands á árunum 2012 til 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, vill engu svara um hvort hann sé á leið til Íslands á ný til að starfa í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, en kveðst halda öllu opnu.

Hann hætti með norska landsliðið í árslok 2020, eftir að því tókst ekki að vinna sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins.

Þegar Arnar Þór Viðarsson var ráðinn landsliðsþjálfari í desember kom fram að KSÍ hefði rætt við Lagerbäck um möguleikana á því að hann kæmi inn í þjálfarateymi liðsins í einhverju hlutverki.

„Þessa dagana einbeiti ég mér að því að vera í sóttkví og fylgja því sem Tegnell (sóttvarnalæknir Svía) fyrirskipar. En eins og ég hef alltaf sagt, þá útiloka ég ekkert og við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði Lagerbäck þegar Fotbollskanalen spurði hann um mögulega endurkomu með íslenska landsliðinu.

„Ég hef fengið fyrirspurnir en segi þér ekki hvaðan þær koma," sagði Lagerbäck og aðspurður hvað þyrfti til þess að fá hann til að taka að sér nýtt starf svaraði hann: „Það er erfitt að segja, en starfið þarf fyrst og fremst að vera áhugavert - það hef ég haft að leiðarljósi allt mitt líf."

mbl.is