Lyon úr leik í Meistaradeildinni

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Lyon geta ekki …
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Lyon geta ekki lengur varið Meistaradeildartitil sinn. AFP

Lyon er úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa tapað 1:2 á heimavelli gegn löndum sínum í París Saint-Germain í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum í dag. Sara Björk Gunnarsdóttir lék ekki með Lyon í dag vegna meiðsla.

Lyon eru ríkjandi Evrópumeistarar og hafa raunar unnið Meistaradeildina síðustu fimm tímabil. Nú er hins vegar ljóst að liðið mun ekki verja titil sinn þetta tímabilið. Sara Björk skoraði sem kunnugt er þriðja og síðasta markið í 3:1 sigri í úrslitaleik gegn Wolfsburg á síðasta ári.

Í leiknum í dag litu hlutirnir vel út fyrir Lyon til að byrja með þegar Catarina Macario kom liðinu yfir strax á fjórðu mínútu. Staðan var þar með orðin 2:0 samanlagt þar sem Lyon vann fyrri leikinn 1:0 í París.

Grace Geyoro jafnaði metin fyrir PSG á 24. mínútu og eftir rúmlega klukkutíma leik varð Wendie Renard fyrir því óláni að setja boltann í eigið net, staðan orðin 1:2 og samanlagt 2:2 í einvíginu.

1:2 urðu lokatölur og fer PSG því áfram í undanúrslitin á útivallarmörkum en þar leikur franska liðið við Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert