Stórsigur Atlético á botnliðinu

Marcos Llorente fagnar öðru marka sinna í dag.
Marcos Llorente fagnar öðru marka sinna í dag. AFP

Atlético Madríd átti ekki í neinum vandræðum með botnlið Eibar í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag. Atlético vann öruggan 5:0-sigur og heldur þar með toppsæti deildarinnar.

Þegar allt virtist stefna í markalausan fyrri hálfleik hrukku heimamenn í Atlético í gang þegar Ángel Correa skoraði í tvígang með tveggja mínútna millibili, fyrst á 42. mínútu og svo á 44.

Staðan því 2:0 í hálfleik og Atlético bætti við tveimur mörkum til viðbótar snemma í síðari hálfleiknum. Fyrst skoraði Yannick Ferreira-Carrasco á 49. mínútu og svo bætti Marcos Llorente við á 53. mínútu.

Áður en leikurinn var úti skoraði Llorente annað mark sitt á 68. mínútu og 5:0-sigur því staðreynd.

Atlético er áfram í efsta sæti spænsku 1. deildarinnar eftir sigurinn, með fjögurra stiga forystu á Real Madríd í öðru sætinu og fimm stiga forystu á Barcelona í þriðja sæti.

Bæði Real og Barcelona eiga þó leik til góða á Atlético.

Eibar er sem fyrr á botni deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert