Eriksen hneig niður í leik Dana og Finna

Hlúð að Christian Eriksen á meðan leikmenn Danmerkur umkringja hann …
Hlúð að Christian Eriksen á meðan leikmenn Danmerkur umkringja hann í leiknum í dag. AFP

Christian Eriksen hneig niður undir lok fyrri hálfleiks í leik Danmerkur og Finnlands í B-riðli EM í knattspyrnu karla í dag. Eriksen missti meðvitund og virtist ekki anda enda var allt tiltækt læknalið kallað til þess að framkvæma endurlífgun á honum. 

Læknaliðið hófst strax handa við að gera allt sem það gæti, þar á meðal hjartahnoð. Eriksen féll við þegar Danir tóku innkast og ólíklegt að leiknum verði haldið áfram.

Leikmenn og stuðningsmenn Dana eru í áfalli og vona það allra besta. Sumir leikmenn Dana sáust biðja til æðri máttarvalda.

Uppfært kl. 16:56: Eriksen var borinn af velli og vonir eru því bundnar við að hann sé kominn til meðvitundar, þótt það hafi ekki fengist staðfest ennþá.

mbl.is