Voru gjörsamlega búnir á því andlega

Kasper Hjulmand gengur af velli í kvöld.
Kasper Hjulmand gengur af velli í kvöld. AFP

„Þetta var mjög erfitt kvöld og við vorum minnt á hvað er mikilvægast í lífinu. Það eru fjölskyldur og vinir. Við erum allir að hugsa um Christian og fjölskylduna hans,“ sagði Kasper Hjulmand, landsliðsþjálfari Dana í fótbolta, á blaðamannafundi eftir 0:1-tap liðsins gegn Finnlandi á Evrópumótinu í kvöld.

Danir urðu fyrir miklu áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Christian Eriksen hneig niður á vellinum og missti meðvitund. Óttast var um líf Eriksens, en eftir langa aðhlynningu lækna komst hann aftur til meðvitundar.

„Ég gæti ekki verið stoltari af leikmönnum mínum. Þeir sjá hver um annan. Leikmenn ákváðu ekki neitt fyrr en þeir vissu að Christian væri með meðvitund og væri í lagi,“ sagði Hjulmand, en leiknum var seinkað um rúman klukkutíma eftir atvikið.

„Það voru tveir möguleikar; spila leikinn í kvöld eða í hádeginu á morgun, og við ákváðum að spila í dag. Við reyndum að vinna og það var ótrúlegt að sjá strákana í seinni hálfleik. Leikmenn mínir voru gjörsamlega búnir á því andlega,“ sagði hann.

mbl.is