Fagnaði sjálfsmarki pabba síns

Mats Hummels súr á svip eftir að hafa skorað sjálfsmarkið …
Mats Hummels súr á svip eftir að hafa skorað sjálfsmarkið sem tryggði Frakklandi sigur. AFP

Mats Hummels, miðvörður þýska landsliðsins í knattspyrnu, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem reyndist sigurmark Frakklands í leik liðanna í F-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu karla á þriðjudagskvöld.

Um var að ræða eina mark leiksins og greindi Hummels frá því á blaðamannafundi í gær að sonur hans, sem er þriggja ára, hafi fagnað sjálfsmarkinu.

„Sem betur fer veit hann ekki enn þá hvað sjálfsmark er. Hann hugsar með sér að ef boltinn fer í markið sé það alltaf rétt. Mér var sagt að hann hafi fagnað. Ég verð líklega að kenna honum hvernig þetta virkar,“ sagði Hummels.

Þýskaland mætir Portúgal í annarri umferð F-riðilsins klukkan 16 í dag.

mbl.is