Þjóðverjar sluppu með skrekkinn og mæta Englandi

Leon Goretzka (18) þrumar boltanum í ungverska markið og kemur …
Leon Goretzka (18) þrumar boltanum í ungverska markið og kemur Þýskalandi áfram. AFP

Þjóðverjar sluppu með skrekkinn og í sextán liða úrslit Evrópumóts karla í fótbolta í kvöld þegar riðlakeppninni lauk með tveimur síðustu leikjum F-riðilsins í München og Búdapest.

Þjóðverjar lentu tvisvar undir gegn Ungverjum á heimavelli og virtust lengi vel á leiðinni út úr keppninni sem neðsta lið riðilsins. Leon Goretzka náði að jafna á 84. mínútu, 2:2, og tryggja þeim sæti í sextán liða úrslitunum. Ungverjar voru þar með úr leik eftir hetjulega frammistöðu og stig gegn bæði Þjóðverjum og Frökkum.

Karim Benzema skorar annað mark sitt og Frakka í kvöld …
Karim Benzema skorar annað mark sitt og Frakka í kvöld og kemur þeim í 2:1. AFP

Þar með er ljóst að England og Þýskaland mætast á Wembley í sextán liða úrslitum keppninnar.

Frakkland og Portúgal gerðu jafntefli í Búdapest á sama tíma, 2:2. Portúgal þurfti stig til að gulltryggja sig áfram.

Frakkar unnu riðilinn með 5 stig, Þjóðverjar fengu 4 stig, Portúgalar 4 og Ungverjar fengu 2 stig og falla úr keppni.

Portúgal mætir Belgíu í sextán liða úrslitunum og Frakkland mætir Sviss.

Finnar urðu um leið síðasta liðið til að falla úr keppni í þriðja sæti riðlanna en Portúgal fór upp fyrir þá með úrslitum kvöldsins og sleppur áfram. Það eru því örlög Finna og Slóvaka að láta staðar numið á EM þrátt fyrir að enda í þriðja sæti í sínum riðlum.

Ungverjar fagna András Schäfer eftir að hann kom þeim í …
Ungverjar fagna András Schäfer eftir að hann kom þeim í 2:1, strax eftir að Þjóðverjar jöfnuðu metin. AFP


Ádám Szálai kom Ungverjum yfir með fallegu skallamarki á 11. mínútu leiksins í München og þeir voru með forystuna í tæpan klukkutíma. Kai Havertz náði að jafna fyrir Þjóðverja, 1:1, á 67. mínútu en strax í næstu sókn skoraði András Schäfer og Ungverjar voru yfir á ný, 2:1.

Þjóðverjar sóttu og sóttu og á 84. mínútu jafnaði Leon Goretzka metin með hörkuskoti rétt innan vítateigs, 2:2.

Cristiano Ronaldo skorar af vítapunktinum gegn Frökkum í kvöld.
Cristiano Ronaldo skorar af vítapunktinum gegn Frökkum í kvöld. AFP


Cristiano Ronaldo kom Portúgölum yfir úr vítaspyrnu eftir hálftíma leik gegn Frökkum í Búdapest. Karim Benzema jafnaði, einnig af vítapunktinum, í lok fyrri hálfleiks og skoraði aftur í upphafi síðari hálfleiks. Þriðja vítaspyrnan var dæmd á 60. mínútu og úr henni jafnaði Ronaldo, 2:2.

Sextán liða úrslitin verða þá þannig:

26.6. Wales - Danmörk
26.6. Ítalía - Austurríki
27.6. Holland - Tékkland
27.6. Belgía - Portúgal
28.6. Króatía - Spánn
28.6. Frakkland - Sviss
29.6. England - Þýskaland
29.6. Svíþjóð - Úkraína

mbl.is