„Kjær setti ný viðmið í leiðtogahæfni á EM“

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool.
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, stakk niður penna í leikskrá félagsins fyrir leik liðsins gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu í kvöld og hrósaði þar Simon Kjær, varnarmanni liðsins, í hástert.

Kjær er fyrirliði danska landsliðsins og hlaut mikið lof fyrir viðbrögð sín þegar Christian Eriksen samherji hans fór í hjartastopp í leik gegn Finnlandi á Evrópumótinu í sumar.

Kjær hljóp umsvifalaust að Eriksen þar sem hann lá í grasinu á Parken-vellinum í Kaupmannahöfn, gekk úr skugga um að hann hafi ekki gleypt tungu sína og kom honum í læsta hliðarlegu.

Hann ásamt Anthony Taylor dómara kölluðu svo þegar í stað á læknateymi Danmerkur og báðu um að það myndi flýta sér inn á völlinn.

Kjær fór svo fyrir liðsmönnum Danmerkur í að mynda hring í kringum Eriksen á meðan hlúð var að honum um nokkurt skeið á vellinum. Þá huggaði hann eiginkonu Eriksens á vellinum ásamt Kasper Schmeichel varafyrirliða.

„Ég myndi vilja bjóða Simon Kjær hjá AC Milan sérstaklega velkominn á Anfield í kvöld. Hann setti ný viðmið í leiðtogahæfni á EM 2020 þegar Christian Eriksen veiktist.

Ég get ekki einu sinni byrjað að gera mér í hugarlund hvernig þessi reynsla var fyrir leikmenn Danmerkur og það er gífurlegur léttir að Christian er áfram á góðum batavegi, en sem fyrirliði gat ég ekki annað en dáðst að því hvernig Simon bar sig og leiddi liðið sitt,“ skrifaði Henderson í leikskránni.

Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins og leikmaður AC Milan, tók …
Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins og leikmaður AC Milan, tók ýmislegt á sínar herðar þegar Christian Eriksen fór í hjartastopp á EM. AFP

Hann bætti því við að allir innan knattspyrnuheimsins dáist að Kjær fyrir það hvernig hann brást við.

Ég sá að UEFA [Knattspyrnusamband Evrópu] hefur veitt Simon og danska læknateyminu „Forsetaverðlaun“ sambandsins og það er bæði við hæfi og verðskuldað. En ég vona að Simon viti það líka að hann á vísa virðingu og aðdáun allra í fótbolta fyrir það hvað hann gerði þennan dag.“

mbl.is