Finnur loks fyrir stolti mánuði síðar

Stephanie Labbé fagnar eftir að hafa varið vítaspyrnu í vítakeppni …
Stephanie Labbé fagnar eftir að hafa varið vítaspyrnu í vítakeppni í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Tókýó. AFP

Kanadíski markvörðurinn Stephanie Labbé, hetja kvennalandsliðsins í knattspyrnu í úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í Tókýó í síðasta mánuði, segist loks finna fyrir stolti yfir því að hafa unnið ólympíugull eftir að hafa átt í erfiðleikum með andlega heilsu sína á meðan leikunum stóð og eftir þá.

Labbé segist hafa upplifað kvíðaköst á meðan leikunum stóð milli leikja og að hún hafi ekki fundið fyrir létti eða gleði þegar Kanada tryggði sér sitt fyrsta ólympíugull og hafi legið tímunum saman í dimmu herbergi á fyrstu tveimur dögunum eftir sögulegan sigurinn gegn Svíþjóð í úrslitaleiknum.

„Þegar við unnum gullið bjóst ég við því að finna fyrir yfirþyrmandi létti, en það bólaði ekkert á honum,“ sagði Labbé við Fifpro, alþjóðaleikmannasamtökin.

Hún meiddist í fyrsta leik á leikunum og sagði að það hafi ýft upp viðkvæmt andlegt ástand hennar.

„Adrenalínið mitt var svo mikið og taugakerfið var svo fínt stillt að ég átti í erfiðleikum með að komast niður á milli leikja, sem leiddi til mikils kvíða og fjölda kvíðakasta,“ sagði Labbé.

„Þegar ég lít til baka skil ég að þetta var uppbygging á öllu sem ég hafði upplifað síðastliðið ár; faraldurinn, þjálfaraskipti og óvissu í tengslum við stöðu mína í liðinu.

Þegar allir vildu ólmir sjá verðlaunapeninginn og tala um upplifunina mína af því að vinna til hans fann ég bara fyrir tómleika. Mér leið sem þessi málmur væri meira virði en ég sjálf sem manneskja, og held að það hafi undið upp á sig,“ sagði hún einnig.

Labbé sagðist þó loks geta glaðst yfir árangrinum í dag, rúmum mánuði eftir að hafa unnið sér inn ólympíugull. „Það er aðeins núna eftir almennilegt hlé og um mánuði síðar að ég get haldið á medalíunni og tengst henni á þann hátt að ég finni fyrir stolti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert