Aron skoraði á ögurstundu og tryggði framlengingu

Aron Elís Þrándarson á landsliðsæfingu í sumar.
Aron Elís Þrándarson á landsliðsæfingu í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Elís Þrándarson kom inn á sem varamaður og skoraði jöfnunarmark OB undir lok venjulegs leiktíma þegar liðið vann góðan 4:1 sigur gegn Nordsjælland í framlengdum leik í 4. umferð dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Nordsjælland komst yfir snemma leiks, á 13. mínútu, með marki Oliver Antman.

Í fyrri hálfleik, á 35. mínútu, misstu heimamenn í Nordsjælland Adama Nagalo út af með rautt spjald eftir að að hann hafði tvö gul spjöld með stuttu millibili.

Einum færri virtist Nordsjælland vera að sigla sigrinum í höfn en á 89. mínútu jafnaði Aron Elís hins vegar metin fyrir OB og tryggði liðinu þannig framlengingu.

Hafði hann komið inn á sem varamaður tíu mínútum fyrr.

Í framlengingunni var Nordsjælland sprungið á limminu og bætti OB við þremur mörkum í henni áður en yfir lauk þegar Mart Lieder skoraði tvívegi og Emmanuel Sabbi einu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert