Suárez kom Úrúgvæ í góða stöðu

Luis Suárez skorar sigurmark Úrúgvæja gegn Paragvæ í nótt.
Luis Suárez skorar sigurmark Úrúgvæja gegn Paragvæ í nótt. AFP

Úrúgvæ styrkti verulega stöðu sína í baráttunni um sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu með því að vinna útisigur á Paragvæ í nótt, 1:0.

Sóknarmaðurinn reyndi Luis Suárez skoraði sigurmarkið á 50. mínútu eftir sendingu frá Diego Godin.

Úrúgvæ komst með sigrinum í fjórða sætið með 19 stig en fjögur efstu liðin komast á HM í Katar og fimmta liðið fer í umspil.

Síle missti af tækifæri til að fylgja Úrúgvæ eftir og tapaði 1:2 fyrir Argentínu á heimavelli. Mörkin komu öll á fyrstu 35 mínútunum en Ángel Di Maria og Lautaro Martínez skoruðu fyrir Argentínu og Ben Brereton jöfnunarmark þar inn á milli fyrir Síle.

Kólumbía og Perú eru með 17 stig í fimmta og sjötta sæti en þau mætast einmitt í gríðarlega þýðingarmiklum leik í kvöld þar sem sigurliðið færi upp í fjórða sætið. Síle er með 16 stig, Bólivía 15, Paragvæ 13 og Venesúela 7 stig.

Brasilía með 36 stig og Argentína með 32 hafa þegar tryggt sér tvö efstu sætin og sæti á HM í Katar og Ekvador stendur mjög vel að vígi í þriðja sæti með 24 stig. Fimmtándu umferðinni af átján lýkur í kvöld og nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert