Átján ára Hvammstangastrákur í ítölsku A-deildinni

Leikmenn Venezia fagna marki. Þeir eru fallnir úr A-deildinni.
Leikmenn Venezia fagna marki. Þeir eru fallnir úr A-deildinni. AFP

Hilmir Rafn Mikaelsson, átján ára strákur frá Hvammstanga, fékk í kvöld tækifæri með liði Venezia í lokaumferð ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu.

Hilmir Rafn kom til Venezia frá Fjölni í Grafarvogi í ágúst á síðasta ári eftir að hafa spilað með Fjölni í B-deildinni  frá vorinu. 

Hann kom í fyrsta sinn inn í aðalliðshóp Venezia í kvöld þegar liðið tók á móti Cagliari í síðustu umferð deildarinnar en Venezia, sem var nýliði í deildinni í vetur, var í neðsta sætinu og þegbar fallið niður í B-deildina á ný.

Hilmir kom inn á sem varamaður á 74. mínútu leiksins. Jakob Franz Pálsson, 19 ára Akureyringur, var líka í hópnum hjá Venezia, í annað sinn á tímabilinu, en kom ekki við sögu. Arnór Sigurðsson, sem hefur verið í láni hjá félaginu frá CSKA Moskva í vetur var hinsvegar ekki í leikmannahópnum.

Leikurinn endaði 0:0 og Venezia hafnaði þar með í neðsta sæti með 27 stig og féll ásamt Genoa með 28 stig og Cagliari með 30 stig, en Cagliari hefði haldið sér uppi á kostnað Salernitana með sigri í leiknum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert