Bayern hóf titilvörnina með látum – Mané skoraði

Leikmenn Bayern München fagna marki í kvöld.
Leikmenn Bayern München fagna marki í kvöld. AFP/Daniel Roland

Bayern München, Þýskalandsmeistarar síðustu tíu ára, áttu ekki í neinum vandræðum með að valta yfir Eintracht Frankfurt í upphafsleik tímabilsins í þýsku 1. deildinni í fótbolta. Lokatölur í Frankfurt urðu 6:1, Bayern í vil.

Bæjarar byrjuðu með miklum látum því Joshua Kimmich og Benjamin Pavard komu liðinu í 2:0 á fyrstu tíu mínútunum. Sadio Mané, Jamal Musiala og Serge Gnabry bættu allir við mörkum og sáu til þess að staðan í leikhléi væri 5:0.

Randal Muani lagaði stöðuna fyrir Frankfurt á 64. mínútu en Musiala gerði annað markið sitt og sjötta mark Bayern á 83. mínútu og þar við sat.

mbl.is