Skyndibitakeðja gerði grín að Ronaldo

Cristiano Ronaldo er án félags sem stendur.
Cristiano Ronaldo er án félags sem stendur. AFP/Fabrice Coffrini

Skyndibitakeðjan KFC skaut föstum skotum að knattspyrnumanninum Cristiano Ronaldo á samfélagsmiðlinum Twitter í gær.

Ronaldo, sem er 37 ára gamall, er sagður vera að ganga til liðs við sádiarabíska félagið Al-Nassr þar sem hann mun þéna í kringum 200.000 milljónir evra í árslaun.

Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United riftu á dögunum samningi leikmannsins eftir að hann fór í viðtal hjá fjölmiðlamanninum Piers Morgan þar sem hann gagnrýndi forráðamenn félagsins, stjórann Erik ten Hag og yngri leikmenn liðsins.

Al-Nassr er sagt eitt af fáum félögum sem vilji semja við portúgölsku stórstjörnuna en hann er nú staddur á HM í Katar með portúgalska landsliðinu.

„Ronaldo yrði ágætis varaskeifa fyrir Aboubakar,“ tísti KFC í gær en Vincent Aboubakar, framherji kamerúnska landsliðsins, er samningsbundinn Al-Nassr í Sádi-Arabíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert