Leipzig valtaði yfir botnliðið

André Silva fagnar öðru marki sínu gegn Schalke í kvöld.
André Silva fagnar öðru marki sínu gegn Schalke í kvöld. AFP/Ina Fassbender

RB Leipzig lenti ekki í nokkrum vandræðum með botnlið Schalke þegar liðin áttust við í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í kvöld. Lauk leiknum með 6:1-sigri gestanna.

Strax varð ljóst í hvað stefndi þar sem Leipzig var komið í 2:0 eftir aðeins stundarfjórðungs leik og var staðan orðin 4:0 þegar flautað var til leikhlés.

André Silva skoraði þá tvívegis auk þess sem Benjamin Henrichs og Timo Werner komust á blað.

Soichiro Kozuki minnkaði muninn fyrir heimamenn í Schalke á 56. mínútu en undir lokin bætti Leipzig við tveimur mörkum þegar Dani Olmo og Yussuf Poulsen skoruðu.

Með sigrinum fór Leipzig upp fyrir Eintracht Frankfurt í annað sæti deildarinnar þar sem liðið er með 32 stig eftir 17 leiki, þremur stigum á eftir toppliði Bayern München, sem á þó leik til góða í kvöld gegn Köln.

mbl.is