Mourinho kærður

José Mourinho ræðir við lærisveina sína á miðvikudagskvöld.
José Mourinho ræðir við lærisveina sína á miðvikudagskvöld. AFP/Odd Andersen

José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, hefur verið kærður af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, fyrir að hafa viðhaft ósæmilegt orðbragð í garð Anthony Taylors, dómara leiks Roma og Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á miðvikudagskvöld.

Mourinho fékk gult spjald frá Taylor fyrir mótmæli á meðan leiknum stóð og sat svo fyrir dómaranum í bílastæðahúsi við Puskás-leikvanginn í Búdapest að honum loknum.

Sevilla hafði betur eftir vítaspyrnukeppni og ákvað Portúgalinn að hrauna yfir Taylor í bílastæðahúsinu þar sem honum mislíkaði ýmsar ákvarðanir enska dómarans í leiknum.

Bæði félög hafa auk þess verið ákærð af UEFA fyrir ósæmilega hegðun leikmanna og stuðningsmanna.

Aga- og siðanefnd UEFA mun á næstunni taka málin fyrir og ákvarða mögulegar refsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert