Klofningur kristallaðist

Hörður J. Oddfríðarson
Hörður J. Oddfríðarson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Klofningur er innan Sundsambands Norðurlandanna, NSF. Af þeim sökum tókst m.a. ekki að ljúka þingi NSF sem fram fór í Reykjavík um liðna helgi. Á þinginu átti m.a. að kjósa nýjan forseta samtakanna en fyrst og fremst að leiða til lykta ágreining um hvaða form eigi að vera á samtökunum á næstu árum.

Svíar, Danir og Norðmenn vilja gera talsverðar breytingar á samstarfinu. Hugmyndir þeirra voru lítið ræddar á þinginu vegna þess að fulltrúar þjóðanna þriggja yfirgáfu þingið óvænt áður en því lauk, að sögn Harðar J. Oddfríðarsonar, formanns Sundsambands Íslands sem einnig er forseti NSF. Hörður vonast til að hægt verði að taka upp þráðinn eftir sex vikur þegar fulltrúar þjóðanna hittast á þingi Sundsambands Evrópu í Búdapest. Hörður segist vonast til þess að menn muni þá ná niðurstöðu um framtíð samtakanna og að um leið velji þau sér nýjan forseta en kjörtímabili Harðar er strangt til tekið lokið.

Að NSF standa auk Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, Finnland, Færeyjar og Eistland.

Nánar er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag