Ísold Fönn vann gull í Slóvakíu

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir efst á verðlaunapalli eftir gull í Slóvakíu …
Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir efst á verðlaunapalli eftir gull í Slóvakíu á síðasta ári. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar gerði sér lítið fyrir og vann til gullverðlauna á alþjóðlegu móti í listhlaupi á skautum, Tirnavia Cup, sem fram fór í Slóvakíu um helgina.

Ísold fékk alls 95,87 stig í flokki Advanced Novice. Það er hennar besti árangur til þessa og skilaði henni framar en keppendur frá Slóvakíu, Ítalíu og Tékklandi sem fylgdu á eftir. Það gekk þó á ýmsu hjá Ísold, en þrátt fyrir að hafa dottið fyrri keppnisdaginn var hún efst að honum loknum með 33,93 stig. Seinni daginn lenti hún meðal annars tveimur af þremur þreföldum stökkum sínum og fékk 61,94 stig fyrir sem skilaði henni samanlagt 95,87 stigum.

Ísold verður í eldínunni á Íslandsmótinu í Egilshöll dagana 1. og 2. desember áður en hún heldur aftur út til Slóvakíu um miðjan desember og keppir á Grand Prix móti í Bratislava. Þess má geta að hún vann gullverðlaun á mótinu í fyrra og varð um leið fyrsti íslenski keppandinn í sögu listskauta á Íslandi sem vann til gullverðlauna á erlendu ISU móti.

Ísold var ekki ein í eldlínunni á erlendum vettvangi um helgina, því fjórar stúlkur fóru á mót í Króatíu, Golden Bear. Þær Herdís Heiða Jing Guðjohnsen og Rebekka Rós Ómarsdóttir kepptu þar í advanced novice flokki. Rebekka hlaut 68,80 stig sem skilaði henni 22. sæti í flokknum. Herdís, sem var að keppa á sínu fyrsta landsliðsmóti, fékk samtals 63,92 stig og hafnaði í 28. sæti. Í junior ladies flokki fékk Viktoría Lind Björnsdóttir 91,55 stig sem skilaði henni 26. sæti. Emilía Rós Ómarsdóttir 76,27 stig sem skilaði henni 32. sæti.

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir.
Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir. Ljósmynd/Facebook-síða Skautasambands Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert