Sara keppir um sæti á heimsleikunum

Sara ætlar sér á heimsleikana í ár en hún þurfti …
Sara ætlar sér á heimsleikana í ár en hún þurfti að draga sig úr keppni í fyrra vegna rifbeinsbrots. Ljósmynd/Instagram

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, afrekskona í crossfit, fór vel af stað á öðrum keppnisdegi af þremur á Wodapalooza-mótinu  sem fram fer í Miami um helgina. Sigurvegari á mótinu öðlast þátttökurétt á heimsleikunum í crossfit í ágúst.

Breyting varð á undankeppni heimsleikanna í crossfit í ár og nú eru leiðirnar inn á leikana fjölbreyttari, en mótið um helgina er eitt af sextán í nýrri mótaröð þar sem sigurvegari í hverjum flokki, það er karla, kvenna og liðaflokki, fær keppnisrétt á heimsleikunum. Síðasta undankeppnin fyrir heimsleikana verður haldin á Íslandi í maí og verður spennandi að fylgjast með hverjir verða ennþá að slást um farseðil á leikana í vor. 

Sara er í fjórða sæti eftir fjórar greinar og hefur hækkað sig jafnt og þétt. Sara lenti í fjórða sæti í fyrstu greininni í gær en í áttunda sæti í annarri greininni. Í þriðju og lokagrein gærdagsins hafnaði hún í sjöunda sæti og var í sjötta sæti eftir fyrsta keppnisdaginn.

Keppnin í dag hófst á svokölluðum „skíðaskóla“ þar sem keppendur þurftu að taka á því í skíðavél (e. Ski Erg), synda 250 metra, gera fjöldan allan af tvöföldum sippum og fara svo aftur á skíðavélina. Sara byrjaði daginn af krafti og endaði í öðru sæti og er þar með komin í fjórða sæti í heildarkeppninni. Tia-Clair Toomey, sem sigraði heimsleikana í fyrra, sigraði í greininni en hún er einnig í fyrsta sæti í heildarkeppninni.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir keppir á sterku móti í Miami um …
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir keppir á sterku móti í Miami um helgina þar sem sigur tryggir keppnisrétt á heimsleikunum í sumar. Sara er sem stendur í fjórða sæti en keppni lýkur annað kvöld. Ljósmynd/Instagram

Seinni keppnisgrein dagsins hefst um miðnætti að íslenskum tíma. Keppninni lýkur svo á morgun og þá kemur í ljós hvort Sara nái að tryggja sér sæti á heimsleikunum.

Björgvin Karl Guðmundsson tekur þátt í liðakeppni ásamt Adrian Mundweiler og Jonne Kosi og eru þeir í efsta sæti sem stendur í flokki liða sem skipuð eru þremur körlum. Ísland á eitt lið í sama flokki, Team Powerade, sem er skipað þeim Árna Birni Kristjánssyni, Þresti Ólasyni og Hilmari Árnasyni, og eru þeir í 16. sæti sem stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert