Hefja nýja leit að Sala á morgun

Til stendur að hefja á ný leit að Emiliano Sala …
Til stendur að hefja á ný leit að Emiliano Sala á morgun. AFP

Hafin verður leit á morgun að flugvélinni, sem argentíski knattspyrnumaðurinn Emiliano Sala var farþegi í þegar hún hvarf við Ermarsundseyjar, á vegum fjölskyldu hans.

Þetta er haft eftir einum af forsvarsmönnum leitarinnar, David Mearns, í frétt AFP en Sala var á leið frá Frakklandi til Bretlands 21. janúar til þess að ganga til liðs við knattspyrnufélagið Cardiff City þegar flugvélin hvarf. Mearns segir góð leitarskilyrði á morgun.

Talið er að braki úr flugvélinni hafi skolað á land í Normandí í Frakklandi á miðvikudaginn. Leitin fer fram í nánu samstarfið við yfirvöld björgunarmála í Bretlandi. Tvö björgunarskip munu taka þátt í leitinni sem fara mun fram norður af eyjunni Guernsey.

Sala var farþegi um borð í flugvél af gerðinni Piper PA-46 Malibu þegar hún hvarf af ratsjám um 20 kílómetra norður af Guernsey. Auk Sala var flugmaðurinn Dave Ibbotson um borð en hann hafði verið fenginn með skömmum fyrirvara til að fljúga vélinni.

Björgunarsveitir hættu leit að flugvélinni á fimmtudaginn eftir að víðtækar aðgerðir með þátttöku flugvéla og skipa skiluðu ekki tilætluðum árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert