„Þetta eru hnakkjöfn lið“

Atli Snær Valdimarsson vel vakandi í markinu í leiknum á …
Atli Snær Valdimarsson vel vakandi í markinu í leiknum á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Atli Snær Valdimarsson var besti maður vallarins í kvöld þegar úrslitaeinvígið í íshokkí karla hófst á Akureyri með leik SA og SR. Atli stóð í marki SR og varði virkilega vel allan leikinn. Það dugði þó skammt þar sem SA vann 3:2 eftir framlengdan leik. Atli var vélaður í viðtal af liðsfélögum sínum sem allir báru hann miklu lofi. Hljóðið var þó nokkuð þungt í kappanum þar sem hann var eflaust sársvekktur yfir því að hafa ekki varið lokaskot heimamanna.

Nú er úrslitaeinvígið loks hafið. Ykkur gekk ekki vel með SA í vetur en það verður allt annað uppi á teningnum í þessu einvígi. Má ekki búast við jöfnum og spennandi leikjum?

„Jú að sjálfsögðu. Það er ekkert annað í boði.“

Hvernig fannst þér þessi leikur spilast?

„Bara mjög vel. Við þurfum bara að sækja aðeins betur, allt annað var í góðu standi. Þetta var fyrst og fremst barátta og hvorugt liðið náði að byggja upp almennilegt spil á stórum köflum. Þetta eru hnakkjöfn lið og það gerist stundum í íshokkí að það verður ekki mikið af fallegu spili. Menn voru mikið að þreifa á hver öðrum og finna hvar menn voru staddir.“

Nú eruð þið lentir undir í einvíginu en ætlið að sjálfsögðu að vinna það.

„Það er ekkert annað í stöðunni. Við höldum bara áfram,“ sagði helmassaður markvörðurinn að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert