SA vann fyrsta leikinn í framlengingu

Akureyringurinn Sigurður Þorsteinsson reynir skot að marki SR í leik …
Akureyringurinn Sigurður Þorsteinsson reynir skot að marki SR í leik liðanna í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lið Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur spiluðu fyrsta leikinn í úrslitakeppninni í íshokkí karla í kvöld. Leikið var í Skautahöllinni á Akureyri en SA vann deildarkeppnina og hefur því heimaleikjaréttinn í einvíginu. Fór svo að leikurinn varð framlengdur eftir 2:2 jafntefli í venjulegum leiktíma. Þar náðu heimamenn að skora eftir rúma mínútu og er SA því með 1:0 stöðu í einvíginu en þrjá sigra þarf til að landa Íslandsmeistaratitlinum

Fyrsti leikhluti var með daufara móti og bæði lið spiluðu af skynsemi og varfærni. SA tók forystu með marki frá baráttujaxlinum Hafþóri Atla Sigrúnarsyni og var það eina mark fyrsta leikhlutans. SA þjarmaði vel að SR-ingum undir lok leikhlutans og áttu heimamenn hvert skotið á fætur öðru en pökkurinn vildi ekki inn. Staðan var því 1:0 eftir fyrsta hluta.

Gestirnir í SR byrjuðu annan leikhluta af krafti og þeir jöfnuðu snemma. Þá höfðu tveir leikmenn SA gert sig seka um óþarfa brot og tveimur fleiri áttu SR-ingar ekki í vandræðum með að skora. Stillt var upp fyrir Patrick Posednicek sem hafði allan tímann í heiminum til að finna skoti sínu leið í markið. Eftir þetta æstust leikar og meira fjör hljóp í leikinn. Menn röðuðu sér á refsibekkinn og liðin skiptust á að þjarma að hvort öðru. Jóhann Már Leifsson kom svo SA aftur yfir eftir snarpa sókn þar sem tveir leikmenn SA voru allt í einu komnir í gegnum vörn SR. Staðan var því 2:1 eftir annan hluta.

Miloslav Racansky jafnaði leikinn á fyrstu mínútu lokaleikhlutans og eftir það skiptust liðin á að koma sér í færi. Með hverri mínútu sem leið jókst spennan en færi voru af skornum skammti. Styrmir Maack fékk reyndar frábært færi fyrir SR en Adam Beukeboom varði á undraverðan hátt. SA átti svo sterkan endasprett en Atli Valdimarsson varði allt sem kom á markið auk þess sem Hafþór Atli skaut yfir úr kjörnu færi.

SR átti fyrsta skotið í framlengingunni en eftir það var SA í sókn. Endaði hún með góðri fyrirgjöf frá Sigurði Þorsteinssyni sem rataði alla leiðina í mark SR. Þar með var leik lokið og heimamenn fögnuðu innilega.

Næsti leikur verður í Skautahöllinni í Laugardal á fimmtudag kl. 19.

Mörk/stoðsendingar:

SA: Sigurður Þorsteinsson 1/0, Hafþór Atli Sigrúnarson 1/0, Jóhann Már Leifsson 1/0, Thomas Stuart-Dant 0/1, Jussi Sipponen 0/1, Jordan Steger 0/1.

SR: Miloslav Racansky 1/0,  Patrick Posednicek 1/0, Petr Kubos 0/2, Andri Freyr Sverrisson 0/1, Egill Þormóðsson 0/1.

Refsimínútur:

SA: 14 mín

SR: 8 + 10 mín

SA 3:2 SR opna loka
62. mín. Sigurður Þorsteinsson (SA) Mark 3:2. Heimamenn voru fljótir að setja markið sem réði úrslitum. Sigurður er með pökkinn úti á kantinum og fyrirgjöf hans virðist rata í fjærhornið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert