Handleggsbraut son sinn í erjum við unnustuna

Tyreek Hill er í basli.
Tyreek Hill er í basli. AFP

Tyreek Hill, útherji Kansas City Chiefs í NFL-deildinni í amerískum ruðningi, er grunaður um að hafa handleggsbrotið son sinn eftir rifildi við unnustu sína á heimili þeirra í úthverfi Kansas í vikunni. 

Sonurinn er þriggja ára. Hill hefur ekki enn verið ákærður, en málið er í rannsókn. Hinn 25 ára gamli Hill hefur áður gerst sekur um heimilisofbeldi. Hann kýldi og hélt um háls unnustu sinnar, er hún var ófrísk af syni þeirra. 

Hann fékk þriggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir brot sitt og var rekinn úr háskólaliði sínu. Það vakti hörð viðbrögð þegar Kansas valdi hann í nýliðavalinu árið 2016, vegna sögu hans. „Tyreek er búinn að vera á réttu brautinni. Við hjálpum honum ef það eru einhver vandamál,“ sagði Andy Reid, þjálfari Kansas, í viðtali í síðasta mánuði. 

Hill er afar vinsæll hjá stuðningsmönnum Chiefs og ver hann klukkutímunum saman að gefa áritanir eftir æfingar. Hann átti von á stórri launahækkun hjá Chiefs, þar sem hann er enn á sínum fyrsta samningi hjá félaginu, og rennur hann út eftir næsta tímabil. 

Hann verður hins vegar væntanlega rekinn frá Kansas, en félagið rak Kareem Hunt fyrir heimilisofbeldi á síðasta ári. Síðasta skilorð Hill er runnið út, og gæti hann því sloppið með skilorðsbundinn dóm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert