Sterkir keppendur á ungmennamóti MÍ

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er skráð til leiks í 100 metra …
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er skráð til leiks í 100 metra og 200 metra hlaupi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meistaramót Íslands í flokki 15-22 ára fer fram næstu helgi á Selfossvelli. 212 keppendur frá 25 félögum víðs vegar um landið eru skráðir til keppni en sigurliðið í fyrra í samanlagðri stigakeppni allra flokka var ÍR. Búast má við sterkri og spennandi keppni í ár þar sem á meðal keppenda er hluti af fremsta frjálsíþróttafólki Íslands og keppendur af EM, HM og NM í flokki unglinga frá því síðasta sumar.

Á meðal keppenda eru Kristján Viggó Sigfinnson, Ármanni, sem ríkjandi Íslandsmeistari í hástökki bæði innanhúss og utanhúss en Kristján keppir í hástökki og spjótkasti um helgina. Fjölþrautarkonan Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, keppir í 100m, 100m grind, langstökki, þrístökki, kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sem varð Evrópumeistari í 100 metra hlaupi í flokki stúlkna 16-17 ára og Ólympíumeistar ungmenna í 200 metra hlaupi síðasta sumar keppir í 100 metra og 200 metra hlaupi og Tiana Ósk Whitworth, ÍR, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í 100 metra spretthlaupi kvenna keppir einnig í 100m og 200m hlaupi um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert