Stökkvari sem missti fótanna

Matti Nykänen á flugi.
Matti Nykänen á flugi. Reuters

Á vetrarólympíuleikunum í Sarajevo í Júgóslavíu fyrir þrjátíu árum vakti ungur Finni talsverða athygli. Matti Nykänen vann þá til gull- og silfurverðlauna í skíðastökki aðeins 21 árs gamall. Sigur hans af hæsta pallinum var mesti yfirburðasigur í skíðastökki í sögu leikanna fram að því. Nykänen fylgdi þessari velgengni sinni kröftuglega eftir og var væntanlega á hátindi síns ferils á leikunum í Calgary í Kanada árið 1988. Eftir að ferlinum lauk tók ýmislegt við hjá kappanum, misjafnlega uppbyggilegt.

Matti Nykänen er frá Jyväskylä, 135 þúsund manna borg liðlega 270 km norður af Helsinki. Eins og flestir íþróttamenn sem komast í heimsklassa byrjaði Nykänen snemma að æfa íþrótt sína og fljótlega komst fátt annað að. Nykänen stökk í fyrsta skipti átta ára gamall eftir áskorun frá föður sínum. Skíðasvæðið í borginni var bæði búið stólalyftu og flóðljósum sem gerði það að verkum að Nykänen náði fleiri stökkum á hverjum degi en margir keppinauta hans. Hann nýtti sér það og æfði gríðarlega mikið eða frá ellefu á morgnana til átta á kvöldin alla daga vikunnar. Ofan á þrotlausar æfingar bættist góð tækni sem gerði honum kleift að stökkva lengra en aðrir í heiminum.


Flaug lengra en 190 metra

Finninn kynntist fljótt verulegri velgengni og varð heimsmeistari ungmenna árið 1981, þá 18 ára. Sama ár vann hann einnig heimsbikarmót í fyrsta skipti. Aðeins ári síðar stóð hann uppi sem sigurvegari á heimsmeistaramótinu í Osló og var þar með kominn í fremstu röð í heiminum en hann fékk einnig bronsverðlaun á sama móti.

Á vetrarólympíuleikunum í Sarajevo fékk Matti Nykänen bæði gull- og bronsverðlaun. Sigur hans á efsta palli kom ekki beinlínis á óvart þar sem hann var ríkjandi heimsmeistari en yfirburðirnir vöktu athygli. Keppinautarnir fóru að kortleggja stíl Finnans í þeirri von að bæta sig en Matti Nykänen hélt sínu striki. Árið eftir leikana í Saravejo bætti hann til að mynda eigið heimsmet og „flaug“ þá 191 metra í Oberstdorf í Þýskalandi. Varð Finninn þar með fyrsti skíðastökkvarinn sem stökk lengra en 190 metra.

Í hæstu hæðum í Calgary

Hæstu hæðunum náði ferill Nykänens væntanlega á vetrarólympíuleikunum í Calgary í Kanada árið 1988. Þá var viðurnefnið „Finninn fljúgandi“ orðið býsna þekkt og við miklu var búist af Matti Nykänen á leikunum. Hann sýndi úr hverju hann var gerður og pressan beit ekkert á hann. Þar varði hann titil sinn af 90 metra palli en bætti einnig við gullverðlaunum af 70 metra palli. Enginn skíðastökkvari hafði fyrr afrekað að vinna gullverðlaun í báðum greinum á Ólympíuleikum og Finninn gerði það með nokkrum yfirburðum. Til að kóróna frammistöðuna bættist þriðja gullið við á leikunum þegar Finnar sigruðu í liðakeppni. Enginn fékk fleiri gullverðlaun á leikunum.

Matti Nykänen var oftar en einu sinni sýndur sá sómi …
Matti Nykänen var oftar en einu sinni sýndur sá sómi að vera settur á frímerki.

Þegar Nykänen hafði landað gulli á 70 metra palli sló Morgunblaðið hinn 16. febrúar 1988 upp fyrirsögninni: „Nykänen er besti skíðastökkvari sem uppi hefur verið.“ Var þar vísað í orð þjálfara kappans sem hét því skemmtilega nafni Matti Pulli.

Finninn fljúgandi keppti í heimsbikarnum til ársins 1991 og ákvað þá að láta gott heita. Þegar upp var staðið hafði hann unnið fern ólympíugullverðlaun, fimm heimsmeistaratitla og sigrarnir í heimsbikarnum urðu fjörutíu og sex talsins. Nykänen var reyndar einungis 28 ára gamall en var farinn að gefa eftir og hafnaði í 50. sæti á HM sama ár.

Hvað gera þjóðhetjur á slíkum tímamótum þegar keppnisferlinum sleppir og íþróttaheimurinn hefur verið sigraður? Jaaa hvers vegna ekki að reyna þá fyrir sér sem söngvari og reyna að sigra tónlistarheiminn einnig? Alltént gerði Nykänen einmitt það og sendi frá sér plötuna Yllätysten yö árið 1992. Var það eins og við manninn mælt; platan seldist í 25 þúsund eintökum. Varla getur það dregist út veturinn að Jón Ólafsson og Kristján Freyr Halldórsson geri verkinu skil í útvarpsþætti sínum.

Missti flugið í tónlistinni

Nykänen hafði verið veikur fyrir áfengi allar götur síðan hann bragðaði slíkt fyrst 14 ára gamall. Áfengisneyslan var ekkert leyndarmál því hann átti það til að koma sér í klandur vegna hennar meðan á keppnisferlinum stóð. Nykänen hefur ef til vill talið að hann væri kominn á ágæta hillu í söngnum og líferni hans hentaði betur poppinu en íþróttunum, svona til lengri tíma litið.

Ekki er þó allt gull sem glóir og næstu plötu kappans árið eftir, Samurai, var mun síður tekið. Finninn fljúgandi missti í framhaldinu flugið í tónlistinni en gaf út smáskífu árið 2002 og sendi frá sér sína þriðju plötu árið 2006: Ehkä otin, ehkä en.

Minnir á George Best

Matti Nykänen minnir að mörgu leyti á George heitinn Best. Báðir koma þeir frá fremur fámennum löndum en komust í allra fremstu röð sem íþróttamenn. Báðir gengu þeir töluverðan spöl með Bakkusi meðan á íþróttaiðkuninni stóð og misstu gersamlega fótanna að ferlinum loknum.

Matti Nykänen á ÓL 1988.
Matti Nykänen á ÓL 1988. Ljósmynd/AFP

Ýmsar uppákomur urðu í kringum Best þegar leið á hans ævi og var hann tíður gestur á síðum slúðurblaðanna. Aðstæðurnar sem hann rataði í virðast þó ekki nærri því eins vígalegar og þær sem Nykänen hefur verið í. Sé eingöngu horft til þess sem Nykänen hefur tekið sér fyrir hendur um dagana þá er þar æðisgengin upptalning. Til að mynda starfaði hann sem fatafella á skemmtistað til skamms tíma. Sagðist reyndar síðar ekki hafa farið úr hverri spjör. Þá tók hann einnig að sér að svara í síma fyrir einhvers konar stefnumótaþjónustu.

Matti Nykänen árið 2014
Matti Nykänen árið 2014

Stungið í svartholið

Nykänen er líklega einhver þekktasti Finni sem uppi hefur verið. Áður var hann þjóðhetja vegna hæfni sinnar í íþróttum en í seinni tíð afar þekktur sem tíður gestur á síðum blaðanna. Og hann er iðulega í hringiðunni. Árið 1995 var útlit fyrir að framboð stofnað í kringum hann byði fram til þings. Einnig hefur hann komið nálægt matreiðsluþáttagerð á netinu, um hann hefur verið gerð kvikmynd og margar bækur skrifaðar.

Áfengisneysla Nykänens og hegðun hefur tekið á sig verulega átakanlegar myndir, sérstaklega í seinni tíð. Hann fór í fangelsi í eitt ár fyrir rúmum áratug. Stakk þá fjölskylduvin með hnífi eftir að þeir kepptu í króki. Aftur var hann dæmdur árið 2010 fyrir líkamsárás, þá á eiginkonu sína, en þrjár konur hafa gengið með Nykänen upp að altarinu. Á hann tvö börn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 2. janúar 2015. Nykänen lést í febrúar á þessu ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert