Frjálsíþróttasumar án fordæma

Evrópskt frjálsíþróttafólk hefur í mörg horn að líta árið 2022.
Evrópskt frjálsíþróttafólk hefur í mörg horn að líta árið 2022. AFP

Ljóst er að sumarið 2022 verður einstakt hvað stórmót í frjálsíþróttum varðar eftir að Alþjóða frjálsíþróttasambandið komst að niðurstöðu um hvað gert yrði við heimsmeistaramótið utanhúss sem fram átti að fara sumarið 2021.

HM verður haldið í Oregon í Bandaríkjunum og ljóst varð að færa þyrfti það eftir að Ólympíuleikunum í Tókýó var frestað um eitt ár, en þeir hefjast 23. júlí 2021.

HM mun nú fara fram í Oregon dagana 15.-24. júlí og þar með verður skammt stórra högga á milli. Evrópumeistaramótið hefst aðeins 18 dögum eftir að HM lýkur, en það verður haldið í München dagana 11. til 21. ágúst. En á milli munu Samveldisleikarnir fara fram í Birmingham á Englandi, dagana 27. júlí til 7. ágúst, og þar eru frjálsíþróttir stór liður á dagskránni en 70 þjóðir eiga keppnisrétt á þeim leikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert