Mörg dæmi um launadeilur hérlendis

Kristinn Björgúlfsson, framkvæmdastjóri Leikmannasamtakanna.
Kristinn Björgúlfsson, framkvæmdastjóri Leikmannasamtakanna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Að undanförnu hafa tveir íslenskir körfuboltamenn staðið í deilum um launagreiðslur við félög sem þeir léku fyrir en hafa nú haft félagaskipti í önnur félög. Bæði málin hafa komið upp á yfirborðið.

Annars vegar hefur Sigurður Gunnar Þorsteinsson stefnt ÍR vegna vangoldinna launa en Sigurður er nú leikmaður Hattar. Þá kom fram í yfirlýsingum frá Kristófer Acox og körfuknattleiksdeild KR að þar hafi komið upp ágreiningur vegna launa. Kristófer gekk í gær í raðir Vals. 

Kristinn Björgúlfsson var driffjöður í stofnun Leikmannasamtaka Íslands sem varð að veruleika í ársbyrjun 2014 og er framkvæmdastjóri samtakanna. Mbl.is spurði Kristin hvort algengt væri að leikmenn í boltagreinum á Íslandi vildu rifta samningi við íþróttafélögin vegna vanefnda. 

„Já það eru mörg dæmi þess. Þetta gerist reglulega. Yfirleitt eru tvær leiðir sem hægt er að fara. Annaðhvort talar leikmaðurinn við sérsambandið í viðkomandi íþrótt eða talar við Leikmannasamtökin. Líklega koma 90% af slíkum málum í fótboltanum og handboltanum inn á borð til okkar. Í flestum tilfellum er samið um skuldina og búið til einhvers konar greiðslufyrirkomulag. Þá fá leikmenn oft að fara frá félaginu ef þeir vilja. En annað slagið hefur það gerst í fótboltanum að málið fer til KSÍ en ekki okkar og samningi er rift.“

Kristinn bendir á að félögin þurfi sannarlega að vera í vanskilum til að slík mál fari í ferli. „Það þarf að sýna fram á að skuld hafi verið í meira en þrjátíu daga. Í framhaldinu þarf að senda bréf og gefa frest. Sé því ekki sinnt með því að greiða skuldina eða semja um hana innan ákveðins tíma þá hefur leikmaðurinn heimild til að rifta samningi en félagið þarf engu að síður að standa við sínar skuldbindingar.“

Kristófer Acox.
Kristófer Acox. mbl.is//Hari

Kristinn segir leikmenn í boltagreinunum á Íslandi ekki þekkja vel þann rétt sem þeir hafa. Alla vega á heildina litið.

 „Fáir leikmenn þekkja reglugerðirnar. Þeir eru oft illa upplýstir. Í mörgum tilfellum virðast leikmenn skrifa undir samninga og vita lítið hvað í þeim felst. Til dæmis hvort þeir séu launþegar eða verktakar,“ segir Kristinn. Spurður um hvort leikmenn í boltagreinum hérlendis séu duglegir að leita til Leikmannasamtakanna segir Kristinn svo vera. 

„Já, þau eru dugleg að leita til okkar. Við höfum aðallega beitt okkur í fótboltanum og handboltanum. Við höfum eytt meiri kröftum í fótboltann einfaldlega vegna þess að þar er um meiri fjárhagslega hagsmuni að ræða. Auk þess fáum við styrki í gegnum Leikmannasamtök í fótbolta erlendis,“ segir Kristinn Björgúlfsson.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert