Taflinu snúið við

Fyrirliðinn Steven Stamkos og Pat Maroon fagna marki hjá Tampa …
Fyrirliðinn Steven Stamkos og Pat Maroon fagna marki hjá Tampa í nótt. AFP

Eftir að hafa lent 0:1 undir í barátunni um Stanley bikarinn víðfræga í íshokkí hefur Tampa Bay Lightning snúið taflinu við og er 2:1 yfir í úrslitarimmunni. 

Dallas Stars vann sem sagt fyrsta leikinn í úrslitunum en Tampa hefur unnið tvo í röð. Tampa Bay vann öruggan 5:2 sigur í Edmonton í nótt en þar er úrslitakeppni NHL-deildarinnar leikin. Staðan var reyndar bara 2:1 eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta skoraði Tampa þrjú mörk og lagði grunninn að sigrinum. 

Leikmenn Flórdíaliðsins dreifðu mörkunum vel á milli manna í nótt. Mörkin skoruðu þeir: Victor Hedman, Steven Stamkos, Nikita Kucherov, Ondrej Palat og Brayden Point. Mörk Texas liðsins skoruðu Jason Dickinson og Miro Heiskanen. 

Vinna þarf fjóra leiki til að verða meistari en Tampa Bay varð síðast NHL meistari árið 2004. 

mbl.is