Mæta ekki til Tókýó vegna smithættu

Keppnislið Norður-Kóreu gengur inn á Ólympíuleikvanginn á síðustu leikum, í …
Keppnislið Norður-Kóreu gengur inn á Ólympíuleikvanginn á síðustu leikum, í Ríó 2016. AFP

Norður-Kórea mun ekki senda keppendur á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar vegna hættunnar á kórónuveirusmitum en íþróttamálaráðherra landsins tilkynnti þetta í dag.

Vonir höfðu verið bundnar við að þátttaka á leikunum yrði skref í áttina að þíðu í samskiptunum við Suður-Kóreu en Norður-Kórea hefur tekið þátt í öllum Ólympíuleikum frá því landið sniðgekk leikana í Suður-Kóreu árið 1988.

Moon Jea-in hafði látið í ljós von um að þjóðirnar gætu teflt fram sameiginlegu liði í Tókýó og það gæti ýtt undir betri tengsl þeirra í framtíðinni. Þá höfðu Moon og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, ákveðið árið 2018 að vinna að því að þjóðirnar sæktu í sameiningu um að halda Ólympíuleikana árið 2032.

Á heimasíðu íþróttamálaráðuneytis Norður-Kóreu segir að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi ólympíunefndar landsins og íþróttamálaráðherrans Kim Il-guk 25. mars, í þeim tilgangi að vernda íþróttafólk Norður-Kóreu fyrir kórónuveirunni. Engin tilvik um veiruna hafa verið tilkynnt í Norður-Kóreu sem hefur verið enn lokaðri en áður eftir að útbreiðsla hennar fór af stað.

mbl.is