Gamla ljósmyndin: Ruddi (maraþon)brautina

Morgunblaðið/Júlíus

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Martha Ernstsdóttir varð fyrst Íslendinga til að keppa í maraþoni þegar hún keppti á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. 

Ekki er hlaupið að því að komast að í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum ef þannig má taka til orða. Í þessari gömlu og vinsælu íþróttagrein eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Kára Steini Karlssyni tókst að feta í fótspor Mörthu í London 2012 og eru þau einu Íslendingarnir sem keppt hafa í maraþoni á Ólympíuleikum. 

Martha var orðin 36 ára gömul þegar hún komst inn á leikana í Sydney. Hafði tekið háskólagráðu og eignast tvö börn. Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins frá þessum tíma var Martha fyrsta íslenska móðirin til að keppa á Ólympíuleikum. Hún sýndi mikla seiglu með því að vinna sér inn keppnisrétt á leikunum en meiðsli settu strik í reikninginn þegar ólympíuárið rann upp. 

Svo fór að meiðsli í læri urðu til þess að hún neyddist til að hætta keppni eftir 27 km í maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum. „Ég bogna ekki þótt ég verði fyrir mótlæti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég mæti mótlæti og það er jafnframt ljóst að ég hef ekki sagt mitt síðasta,“ hafði Ívar Benediktsson eftir Mörthu í Morgunblaðinu að hlaupinu loknu. 

Voru það orð að sönnu en Martha var illviðráðanleg í hinum ýmsu götuhlaupum á Íslandi í áraraðir og ósennilegt er að sterkari götuhlaupari hafi komið fram á Íslandi í kvennaflokki. Á hún besta tíma íslenskrar konu í maraþoni, hálf maraþoni og 10 kílómetra götuhlaupi. Á brautinni á hún Íslandsmet bæði í 5.000 og 10.000 metra hlaupum. 

Meðfylgjandi mynd var tekin eftir að Martha fagnaði sigri í hinu rótgróna Víðavangshlaupi ÍR fyrir rétt rúmum þrjátíu árum. Myndin birtist í Morgunblaðinu hinn 27. apríl árið 1991 en í umfjöllun blaðsins um hlaupið er bent á að einungis fjórir karlar hafi komið í mark á undan Mörthu í hlaupinu. 

Myndina tók Júlíus Sigurjónsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Með Mörthu á myndinni er sigurvegarinn í karlaflokki Toby Tanser en hann var nokkuð sigursæll í götuhlaupum á þessum árum. 

Martha hafnaði í 3. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 1994. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert