Slapp betur en á horfðist eftir kampavínsslys

Biniam Girmay var brosmildur þrátt fyrir slysið.
Biniam Girmay var brosmildur þrátt fyrir slysið. AFP/Luca Bettini

Hjólreiðamaðurinn Biniam Girmay hefur þurft að draga sig úr keppni á Giro d’Italia-mótinu vegna óhapps sem hann varð fyrir er hann fagnaði sigri á tíunda degi mótsins í gær.

Girmay slasaðist þegar hann opnaði kampavínsflösku í fagnaðarlátunum en tappinn á flöskunni skaust í augað á Eritreumanninum. Var hann fluttur á spítala í kjölfarið.

Höfðu margir áhyggjur af því að Girmay gæti verið alvarlega slasaður og ætti á hættu á að missa augað. Meiðslin eru hins vegar ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu, þótt hann taki ekki frekari þátt á mótinu.

„Ég var sorgmæddur vegna atviksins með kampavínið og liðsfélagar míni höfðu áhyggjur af mér. Ég get ekki tekið frekari þátt á mótinu því augað þarf hvíld. Það er í lagi með mig núna og ég þakka stuðninginn,“ sagði Girmay í samtali við BBC.

Atvikið má sjá hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert