Silvía og Birta sendu Ísland upp um deild

Íslenska landsliðið í Zagreb.
Íslenska landsliðið í Zagreb. Ljósmynd/Stjepan Cizmadija

Ísland sigraði Ástralíu, 2:1, eftir framlengingu og bráðabana í úrslitaleik 2. deildar kvenna B á heimsmeistaramótinu í íshokkí í Zagreb í Króatíu í dag.

Bæði lið höfðu unnið alla þrjá leiki sína á mótinu en Ástralir haft meiri yfirburði í sínum leikjum og voru með markatöluna 37:0 en Ísland með 24:4 fyrir úrslitaviðureignina í dag.

Sunna Björgvinsdóttir kom Íslandi yfir undir lok annars leikhluta, eftir undirbúning Teresu Snorradóttur og Silvíu Björgvinsdóttur, og það var því fyrsta markið sem ástralska liðið fékk á sig í mótinu.

Kristelle Wolf jafnaði metin fyrir Ástralíu, 1:1, þegar sjö mínútur voru liðanar af þriðja og síðasta leikhluta.

Þar með þurfti að framlengja og þar var ekkert skorað þannig að grípa þurfti til bráðabana til að knýja fram úrslitin og sigurvegara í riðlinum.

Eftir sex umferðir þar sem hvorugu liðinu tókst að skora réðust úrslitin í sjöundu umferðinni þar sem Silvía Björgvinsdóttir skoraði og Birta Helgudóttir varði frá Shonu Green.

Ísland fékk því 11 stig og Ástralía 10 í tveimur efstu sætunum og Ísland leikur því í 2. deild A á næsta heimsmeistaramótiæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert