Hlín skoraði sigurmarkið og Berglind Rós á skotskónum

Hlín Eiríksdóttir var á skotskónum í dag.
Hlín Eiríksdóttir var á skotskónum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir skoraði sigurmarkið er liðsfélagar hennar í Piteå unnu góðan 1:0-útisigur á Kalmar í sænsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag.

Hlín var í byrjunarliðinu og skoraði eina mark leiksins á 54. mínútu, en fór svo af velli þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Piteå fer upp í sjötta sætið með sigrinum en liðið er með 36 stig eftir 21 leik. Liðið hefur unnið sex af síðustu sjö leikjum sínum og gert eitt jafntefli.

Þá skoraði Berglind Rós Ágústsdóttir þriðja markið í 3:1-sigri Örebro á Umeå í sömu deild. Vilma Koivisto kom heimakönum í Umeå í forystu á áttundu mínútu.

Gestirnir voru þó fljótir að svara fyrir sig. Michaela Kovacs og Heidi Kollanen komu Örebro í 2:1-forystu áður en Berglind bætti við þriðja markinu og þar við sat.

Örebro er í 9. sæti með 30 stig. Umeå er í næstneðsta sætinu með 9 stig.

mbl.is