Magnús bætti sig um 13 högg - Sigurpáll og Heiðar báðir undir pari

Heiðar Davíð Bragason.
Heiðar Davíð Bragason. Kristinn Ingvarsson

Magnús Lárusson úr Kili bætti sig um 13 högg í dag á öðrum keppnisdegi á 1. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Hann lék Chart Hills völlinn á 69 höggum eða 3 höggum undir pari en í gær var Magnús á 82 höggum. Hann er í 78.-83. sæti. Sigurpáll Geir Sveinsson og Heiðar Davíð Bragason, báðir úr Kili, eru á 2 höggum undir pari þegar keppni er hálfnuð á Fleesensee-vellinum í Þýskalandi en þar er einnig leikið á 1. stigi úrtökumótsins. Þeir eru í 18.-25. sæti þegar keppni er hálfnuð en 26 kylfingar komast áfram á 2. stigið af þessum velli.

Sigurpáll lék á 2 höggum undir pari í dag en var á 72 höggum í gær eða pari vallar. Heiðar Davíð snéri þessu við og lék á pari vallar í dag en á 2 höggum undir pari í gær. Ekki er vitað hvar þeir standa í röðinni. Ottó Sigurðsson, Íslandsmeistari í holukeppni karla, leikur á Oxfordshire vellinum á Englandi ásamt Erni Ævari Hjartarsyni úr GS. Ottó hefur lokið leik í dag en hann lék á einu höggi yfir pari og er samtals á 9 höggum yfir pari, 80 og 73 höggum. Örn Ævar var á 80 höggum í gær en í dag var hann á pari vallar, eða 72 höggum. Ottó er í 92.-94. sæti en Örn í 86.-91. sæti.

Á Chart Hills eru 104 kylfingar sem keppa og þeir sem eru í 27. sæti eða ofar að loknum fjórða hring komast áfram á 2. stig úrtökumótsins.

Á Oxfordshire eru 104 kylfingar sem keppa og þeir sem eru í 29. sæti eða ofar að loknum fjórða hring komast áfram á 2. stig úrtökumótsins.

Á Fleesensee eru 99 kylfingar sem keppa og þeir sem eru í 26. sæti eða ofar að loknum fjórða hring komast áfram á 2. stig úrtökumótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert