„Undirritun skjalsins var breytt“

Björgvin Þorsteinsson.
Björgvin Þorsteinsson.

Sexfaldur Íslandsmeistari í golfi, Björgvin Þorsteinsson, telur að forráðamenn Golfsambands Íslands hafi brotið á sér með því að meina honum að notast við golfbíl á Íslandsmótinu í höggleik sem fram fer á Garðavelli á Akranesi.

Björgvin hætti eins og kunnugt er leik eftir sex holur á sínu 52. Íslandsmóti í röð þar sem hann er í lyfjameðferð vegna krabbameins og bað þess vegna um að fá að nota golfbíl.

Hann hefur undir höndum skjöl sem sýna það að Golfsambandið hafi einfaldlega breytt undirskrift á almennum keppnisskilmálum fyrir Eimskipsmótaröðina í golfi og fyrir Íslandsmótið í golfi sem er hluti af þeirri mótaröð.

„Undirritun skjalsins var breytt,“ sagði Björgvin í samtali við mbl.is í dag.

Eins og sjá má í skjölunum sem að hér birtast neðst í fréttinni sést að þann 14. júlí er undirskriftin á keppnisskilmálum mótsins: „Mótanefnd Golfsambands Íslands, maí 2015“.

Því hafi hins vegar verið breytt eftir á í: „Mótanefnd Golfsambands Íslands og mótsstjórn Íslandsmóts, maí 2015“.

„Svona á ekki að stjórna íþróttasamtökum“

Ástæðan fyrir þessari breytingu er einföld þar mótanefndin hefur ekki reglusetningarvald. 

„Ég hafði samband við forseta GSÍ þann 14. Júlí og skýrði honum frá því að ég teldi að brotinn hefði verið réttur á Kára Erni (Hinrikssyni) þegar honum var meinað að nota golfbíl á móti í Mosfellsbænum. Sagði ég honum að ég teldi mér heimilt að nota golfbíl á Íslandsmótinu. Benti ég honum á að reglur einhverrar mótanefndar GSÍ hefðu ekkert gildi þar sem þeirri nefnd væri hvergi heimilað að setja reglur. Um mótin gilda móta- og keppnisreglur GSÍ og síðan um Íslandsmótið reglugerð um Íslandsmót karla og kvenna. Viðbrögðin voru óvænt,“ segir Björgvin og heldur áfram.

„Forsetinn áttar sig á því að mótanefndin hefur engan grundvöll til að setja reglur og hefur örugglega haft samband við framkvæmdastjóra GSÍ sem reynir að bæta úr þessu með því að láta líta út fyrir að mótanefnd Íslandsmótsins hafi jafnframt komið að því að setja þessar reglur. Mótsstjórn Íslandsmóts á hins vegar að auglýsa Íslandsmótið og þær reglur sem gilda með löngum fyrirvara en ekki um það leyti sem skráningarfrestur í mótið er að renna út," segir Björgvin.

„Heiðarleiki, virðing og kurteisi eru grunngildi golfíþróttarinnar. Mér sýnist það vera komið upp í öndverðu sína,“ segir Björgvin.

„Mótanefnd Golfsambands Íslands er hvergi til í regluverki Golfsbandsins." segir Björgvin en aðeins eru tilteknar fjórar nefndir í lögum Golfsambandsins: áhugamennskunefnd, forgjafarnefnd, dómaranefnd og aganefnd.

Í keppnisskilmálum segir í 4. gr. að „Leikmenn mega ekki ferðast á eða í neins konar farartæki á meðan fyrirskipuð umferð er leikin, nema mótsstjórn eða dómari leyfi.“

„Ef þetta gilti: hvenær ætti að leyfa þetta? Þetta skjal er líka yfir landsmót eldri kylfinga. Þá er þetta leyft. Ef menn vegna heilsufarsástæðna þyrftu á bíl að halda,“ segir Björgvin sem fékk að nota golfbíl á því móti.

„Svona á ekki að stjórna íþróttasamtökum,“ segir Björgvin en hann ætlar ekki sér ekki að fara lengra með þetta en segir að Golfsamband Íslands þurfi að svara fyrir þetta.

„Ég ætla ekki lengra með þetta, ég ætla ekki með þetta fyrir dómstól GSÍ og fá ógildingu á landsmótinu, ég geri það ekki keppendanna vegna. Það hvarflar ekki að mér. En þeir þurfa að svara fyrir þetta,“ segir Björgvin.

Hér má sjá keppnisskilmála GSÍ í núverandi mynd.

Skjáskot frá keppnisskilmálum 14. júlí.
Skjáskot frá keppnisskilmálum 14. júlí. Mbl.is
Skjáskot af keppnisskilmálum 21. júlí.
Skjáskot af keppnisskilmálum 21. júlí.
mbl.is