„Pútterinn var ískaldur“

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/Tristan Jones

Valdís Þóra Jónsdóttir segir tilfinningar sínar blendnar eftir frammistöðuna á Lalla Meryem-mótinu í Marokkó um helgina. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi og hafnaði Valdís Þóra í 50.-53. sæti.

Hún lék hringina fjóra samtals á 9 höggum yfir pari, en þar af lék hún síðustu 9 brautirnar af 72 á fjórum höggum yfir pari. Valdís Þóra færðist þannig niður um 20 sæti á lokasprettinum:

„Ég er með blendnar tilfinningar eftir þetta mót. Skorin sem ég spilaði á endurspegla engan veginn spilamennsku mína í þessu móti og það er svekkjandi,“ skrifaði Valdís Þóra á Facebook-síðu sína.

„Pútterinn minn var ískaldur allt mótið og það reyndi heldur betur á þolinmæðina að vera stöðugt í fuglafærum en setja varla eitt einasta pútt ofan í. Stundum er það víst þannig! Seinni 9 í dag [innsk.: á lokahringnum á sunnudag] voru ekki góðar og þær hreinlega eyðilögðu mótið fyrir mér,“ skrifaði Valdís Þóra.

Næsta mót Valdísar fer fram í bænum Sitges, rétt fyrir utan Barcelona á Spáni, og hefst það strax á fimmtudaginn. „Vonum að pútterinn hitni í fluginu til Barcelona,“ skrifaði Valdís létt.