Birgir í toppbaráttunni

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson

Birgir Leifur Hafþórsson, Íslandsmeistari í golfi, er í toppbaráttu eftir tvo hringi af fjórum á Swiss Challenge mótinu í Sviss. Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni, næststerkustu mótaröð Evrópu. Birgir var efstur eftir að hafa leikið 13 holur í gær, en þá var gert hlé vegna þrumuveðurs. Hann fékk tvöfaldan skolla á einni holu eftir að keppni hófst að nýju, en lék á -4 höggum í gær því hann fékk heila 6 fugla. Hann er samtals á -8 höggum, þremur höggum á eftir Skotanum Craig Lee sem er efstur. Birgir var sex höggum frá niðurskurðarlínunni sem dregin var í gær.

Kevin Phelan frá Írlandi og Bandaríkjamaðurinn Julian Suri eru í 2.-3. sæti á -10 höggum og Victor Riu frá Frakklandi fjórði á -9 höggum. Birgir kemur svo þar á eftir ásamt þremur öðrum.