Ólafía í toppbaráttu eftir fyrsta hring

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék hreint frábærlega á fyrsta hring Indy Women-mótsins á LPGA-mótaröðinni í Indianapolis í Bandaríkjunum í kvöld, en hún kom í hús á fimm höggum undir pari og er í toppbaráttunni.

Ólafía fékk skolla á þriðju holu í kvöld, en eftir að hafa svarað því með pari sneri hún algjörlega við blaðinu. Hún fékk fimm fugla á næstu sjö holum og kleif hægt og bítandi upp töfluna.

Ólafía hélt stöðugleikanum allt til enda, paraði sex holur í röð en kláraði svo á sjötta fugli sínum á hringnum. Hún kom því í hús samtals á 67 höggum eða fimm höggum undir pari. Enn eiga nokkrir kylfingar eftir að ljúka leik, en þegar Ólafía lauk hringnum var hún jöfn fleiri kylfingum í 9. sæti.

Lexi Thompson er í forystu á níu höggum undir pari, en Ólafía er ekki nema tveimur höggum frá þriðja sætinu Annar hringur verður leikinn á morgun.

Mbl.is fylgdist grannt með Ólafíu á hringnum og beina textalýsingu frá holu til holu má sjá hér að neðan.

Ólafía í Indianapolis - 1. hringur opna loka
kl. 21:26 Textalýsing <b>9. FUGL</b> - Þetta kallast að ljúka leik með stæl, Ólafía Þórunn! Hún nælir í sinn sjötta fugl á síðustu holunni og er jöfn fleiri kylfingum í 8. sæti þegar hún hefur lokið hringnum. Ekki eru allir komnir í hús og því gæti það breyst, en hún er engu að síður í toppbaráttu, það er ljóst! <b>Staðan: -5.
mbl.is