Valdís byrjaði lokamótið á 75 höggum

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/Ladies European Tour

Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur lék á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari á fyrsta hring á Omega Dubai Ladies Classic-mótinu, lokamóti ársins á LET-Evrópumótaröðinni. Eins og nafnið gefur til kynna er leikið í Dubai. 

Alls eru 108 þátttakendur á mótinu og er Valdís í 82. sæti. Hún fór vel af stað og fékk fugl strax á fyrstu holu. Hún fékk hins vegar tvo skolla í röð á 5. og 6. holu og tapaði tveimur höggum á 12. holu. Hún fékk sinn annan fugl á 16. holu en tapaði öðru höggi á 17. holu og endaði því á þremur yfir. 

Valdís Þóra er örugg með sæti á mótaröðinni á næsta tímabili en hún er í 50. sæti á styrkleikalistanum. Til þess að halda keppnisréttinum þurfa keppendur að vera á meðal 80 efstu í lok tímabilsins.

Þetta er 9. LET-Evrópumótið á þessu tímabili hjá Valdísi. Besti árangur hennar var á síðasta móti í Kína þar sem hún endaði í þriðja sæti – en það er besti árangur hjá íslenskum kylfingi á einni af stóru mótaröðunum í atvinnugolfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka