Guðrún komin með þægilega forystu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Guðrún Brá Björgvinsdóttir mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

KPMG-Hval­eyr­ar­bik­ar­inn í Eimskipsmótaröðinni í golfi hélt áfram í dag er kylfingar léku sinn annan hring á Hvaleyrarvelli.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili er áfram efst kvenkylfinga, rétt eins og eftir fyrsta hringinn í gær. Hún lék hringinn í dag á tveimur höggum yfir pari eða 73 höggum og er hún því alls þremur höggum yfir að einum hring óloknum.

Berglind Björnsdóttir úr GR er önnur en hún lék á fjórum yfir í dag og er því alls á sjö höggum yfir og hefur Guðrún því nokkuð þægilega forystu. Anna Sólveig Snorradóttir úr GK er þriðja á 11 höggum yfir alls.

Í karlaflokki er Rúnar Arnórsson úr GK búinn að hirða toppsætið en hann var þriðji eftir fyrsta hringinn. Hann lék í dag á einu höggi undir og er nú samanlagt þremur höggum undir fyrir þriðja og síðasta hringinn á morgun. Henning Darri Þórðarson úr GK er annar á tveimur höggum undir alls.

Næst koma fjórir kylfingar jafnir í þriðja sæti, allir á alls einu höggi yfir pari. Þeirra á meðal er GKG-ingurinn Egill Ragnar Gunnarsson sem var efstur í gær en hann lék hringinn í dag fjórum höggum yfir pari eftir að hafa leikið hann í gær á þremur undir eða 68 höggum.

Þriðji og síðasti hringurinn fer fram á morgun.

Rúnar Arnórsson.
Rúnar Arnórsson. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert