Ólafía á leiðinni í úrtökumót

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Hvaleyrarvelli í júlí.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Hvaleyrarvelli í júlí. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur fer í úrtökumót í Bandaríkjunum í næsta mánuði. Mun hún þá freista þess að endurnýja fullan keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni bandarísku, þeirri sterkustu í heimi.

Ólafía mun leika í Norður-Karólínu eða nánar tiltekið á velli á hinu kunna Pinehurst-golfsvæði en þar er nokkra velli að finna. Ólafía þekkir sig vel í ríkinu því þar var hún í háskóla á sínum tíma, Wake Forrest-skólanum.

Ólafía er nú í 139. sæti á peningalistanum á LPGA eftir 21 mót en mun tæplega leika á fleiri mótum á mótaröðinni á þessu ári. Fram undan er síðasta risamótið, Evian, sem haldið er í Frakklandi. Þar á Ólafía ekki keppnisrétt. Eftir mánuð eða svo fer í hönd rúntur um Asíu þar sem nokkur mót eru á dagskrá en mjög margar af bestu kvenkylfingum heims koma einmitt frá Asíu. Tímabilinu lýkur með Tour Championship, árlegu lokamóti mótaraðarinnar. Um 80 efstu á peningalistanum komast á Tour Championship. Ólafía var með á mótinu í fyrra eftir frábæran árangur sinn á nýliðaárinu og var þá í 73. sæti peningalistans. Í fyrra komst hún einnig inn í mótin í Asíu en ekki í þetta skiptið.

Ítarlega er fjallað um stöðu Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert