Öruggur sigur Íslandsmeistarans

Guðrún Brá Björgvinsdóttir bar sigur úr býtum.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir bar sigur úr býtum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir vann öruggan sigur í Hvaleyrarbikarnum í golfi í Hafnarfirði í dag. Veður hefur sett strik í reikninginn en aflýsa þurfti fyrstu tveimur keppnisdögunum og voru því leiknir tveir hringir í dag. 

Guðrún lék hringina tvo á þremur höggum undir pari og var fimm höggum á undan Huldu Clöru Gestsdóttir sem varð önnur. Ragnhildur Kristinsdóttir varð þriðja á fjórum höggum yfir pari og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fjórða á sjö höggum yfir pari. 

Guðrún Brá lék gríðarlega öruggt golf á hringjunum tveimur og fékk samtals sjö fugla, aðeins tvo skolla og einn tvöfaldan skolla á holunum 36. Er þetta í annað sinn sem Guðrún ber sigur úr býtum í Hvaleyrarbikarnum. 

Hákon Örn Magnússon vann eftir spennandi keppni í karlaflokki. Lék hann hringina tvo á fjórum höggum undir pari og var einu höggi á undan Guðmundi Rúnari Hallgrímssyni. Andri Már Óskarsson og Axel Bóasson komu þar á eftir á tveimur höggum undir pari. 

Hákon lék fyrri  hringinn á 67 höggum og seinni hringinn á 71 höggi. Fékk hann samtals ellefu fugla og sjö skolla. 

mbl.is