Góður endir á frábærum vetri

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. Eva Björk Ægisdóttir

„Það var ánægjulegt að klára veturinn með þessum góða sigri og leikurinn var í takti við spilamennsku okkar í vetur. Sóknarleikurinn var góður og við léku fínan varnarleik á köflum. Nú hefst bara nýtt mót og við verðum að leggja þennan titil til hliðar," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 32:31 sigur liðsins gegn Val í lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik í Schenker-höllinni kvöld.

„Það eru þrjár umferðir síðan við tryggðum okkur deildarmeistaratitilinn og við höfum haldið dampi eftir það. Við höfum haft betur í þessum þremur leikjum með 28 marka mun sem er virkilega vel gert. Ég hafði áhyggjur af því að við myndum verða værukærir eftir að deildarmeistaratitillinn var í höfn, en við settumst niður og ræddum það að halda áfram af fullum krafti og það höfum við gert,“ sagði Gunnar um síðustu þrjá leiki Hauka.

„Það var smá hiti í þessu og við Óskar Bjarni [Óskarsson, þjálfari Vals] sem erum annars dagfarsprúðir menn náðum að kveikja aðeins í þessu. Það er svo framundan nýtt mót þar sem öll liðin byrja með hreint blað og góð spilamennska okkar fyrr í vetur gefur okkur ekkert í úrslitakeppninni,“ sagði Gunnar um leikinn í kvöld og framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert